Alls 8.685 kröfum lýst við slitameðferð Glitnis
Frestur til að lýsa kröfum við slitameðferð Glitnis rann út þann 26. nóvember síðast liðinn og á fundi með kröfuhöfum þann 17. desember n.k. mun slitastjórn fara yfir kröfuskrána og gera grein fyrir þeim ákvörðunum sem þegar liggja fyrir. Þá gefst kröfuhöfum jafnframt tækifæri til að andmæla afstöðu slitastjórnar til einstakra krafna.
Alls var lýst 8.685 kröfum við slitameðferð Glitnis og nemur samanlögð fjárhæð þeirra 3.436 milljörðum íslenskra króna, miðað við gengi Seðlabanka Íslands 22. apríl 2009. Um er að ræða ítrustu kröfur sem kunna að lækka við yfirferð slitastjórnar auk þess sem sömu kröfu er í einhverjum tilvikum lýst oftar en einu sinni. Á meðal stærstu kröfuhafa eru annars vegar erlendar fjármála- og bankastofnanir en hins vegar aðrir skuldabréfaeigendur.
Hlutfallslega fáar launakröfur eru gerðar við slitameðferð Glitnis þar sem flestir almennir starfsmenn hafa þegar fengið greitt. Slitastjórn hefur ákveðið að hafna sem forgangskröfum launakröfum fyrrum framkvæmdastjórnar Glitnis og forgangskröfum svokallaðra heildsölu- og peningamarkaðslána. Kröfum um kaupauka og bónusa hefur einnig verið hafnað. Þá hefur slitastjórn jafnframt hafnað því að víkjandi skuldabréf njóti stöðu almennra krafna en fjöldi slíkra krafna er um 2300 og nemur samanlögð fjárhæð þeirra tæplega 180 milljörðum króna.
Undanfarna daga hefur kröfuhöfum verið sent í pósti lykilorð sem opnar þeim aðgang að kröfuskránni á vef Glitnis www.glitnirbank.com.