Kröfuhafafundir 20. nóvember 2015
Glitnir hf. tilkynnir hér með að tveir kröfuhafafundir verða haldnir föstudaginn, 20. nóvember n.k. Hér að neðan eru þær tilkynningar sem voru sendar til og birtar í Lögbirtingablaðinu.
Kröfuhafafundur í slitameðferð Glitnis hf.
Föstudaginn 20. nóvember 2015, kl. 09:30, verður haldinn kröfuhafafundur vegna slitameðferðar Glitnis hf., kt. 550500-3530. Verður fundurinn haldinn í Silfurbergi, Hörpu, Austurbakka 2, 101 Reykjavík. Auk almennra fundarstarfa kröfuhafafundar verða eftirfarandi atriði á dagskrá fundarins:
1. Kynning á uppfærðu stöðugleikaframlagi og afleiddar breytingar.
2. Lausn undan ábyrgð, þar með talið stjórnvalda.
3. Atkvæðagreiðsla um ályktun er varðar uppfært stöðugleikaframlag og afleiddar breytingar.
4. Atkvæðagreiðsla um ályktun er varðar lausn undan ábyrgð.
Rétt til fundarsetu hafa þeir sem lýst hafa kröfu á hendur Glitni hf. sem ekki hefur verið endanlega hafnað eða þeir sem hafa fengið slíka kröfu framselda með lögmætum hætti. Fundargögn verða aðgengileg á aðgangsstýrða vefsvæði Glitnis, www.glitnir.info.
Boðun fundar til atkvæðagreiðslu um nauðasamningsfrumvarp Glitnis hf.
Í samræmi við 151. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 (með síðari breytingum) er hér með boðað til fundar til atkvæðagreiðslu um frumvarp að nauðasamningi Glitnis hf., kt. 550500-3530, í samræmi við XII. kafla fyrrgreindra laga og ákvæði 103. gr. a laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 (með síðari breytingum). Fundur um atkvæðagreiðsluna verður haldinn í Silfurbergi, Hörpu, Austurbakka 2, 101 Reykjavík, föstudaginn 20. nóvember 2015, kl. 11.00.
Rétt til fundarsetu hafa þeir sem lýst hafa kröfu á hendur Glitni sem ekki hefur verið endanlega hafnað eða þeir sem hafa fengið slíka kröfu framselda með lögmætum hætti. Einungis samningskröfuhafar sem ekki eiga skilyrtar kröfur og teljast ekki nákomnir í skilningi laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, eiga rétt til að greiða atkvæði um frumvarp til nauðasamningsins.
Frumvarp að nauðasamningi Glitnis hf. ásamt lista yfir þá kröfuhafa sem teljast samningskröfuhafar og hafa því atkvæðisrétt á fundinum verður birt á aðgangsstýrðu vefsvæði Glitnis, www.glitnir.info. Gögnin verða jafnframt tæk til skoðunar á skrifstofu Glitnis að Sóltúni 26, 105 Reykjavík að lágmarki tveimur vikum fyrir boðaðan kröfuhafafund.
Reykjavík 4. nóvember 2015.
Slitastjórn Glitnis hf.
Steinunn Guðbjartsdóttir hrl.
Páll Eiríksson hdl.