Eignarhald dótturfélaga Glitnis fært undir GLB Holding
Eignarhald á dótturfélögum Glitnis, sem hafa með höndum fjármála-og vátryggingastarfsemi hefur verið fært undir eitt eignarhaldsfélag, GLB Holding. Félagið er að fullu í eigu Glitnis. Þessi skipulagsbreyting er gerð meðal annars til að fullnægja skilyrðum Fjármálaeftirlitsins, sem þann 30. desember síðast liðinn veitti ISB Holding, leyfi til að fara með 95% eignarhlut Glitnis í Íslandsbanka. Áður hafði Samkeppniseftirlitið veitt samþykki sitt.
Eignarhaldsfélagið GLB Holding er fjárhagslega mjög sterkt félag en eigið fé þess er 96,5 milljarðar íslenskra króna og er eiginfjárhlutfall 100%. GLB Holding er því afar öflugur bakhjarl þeirra fyrirtækja sem eru á forræði Glitnis og starfa á sviði fjármála og vátrygginga. Stjórn GLB Holding skipa Heimir V. Haraldsson formaður, Þórdís Bjarnadóttir og Kristján Óskarsson. Heimir og Þórdís sitja í skilanefnd Glitnis en Kristján er framkvæmdastjóri Glitnis. Framkvæmdastjóri GLB Holding er Ingólfur Hauksson fjármálastjóri Glitnis.
Ennfremur hefur verið skipuð stjórn ISB Holding. Í samræmi við skilyrði Fjármálaeftirlitsins er hún að meirihluta skipuð stjórnarmönnum sem eru óháðir Glitni, stórum kröfuhöfum og Íslandsbanka. Í stjórn ISB Holding sitja Ólafur Ísleifsson, lektor við HR, formaður, Ásta Þórarinsdóttir, hagfræðingur, og María B. Ágústsdóttir framkvæmdastjóri ISB Holding og starfsmaður skilanefndar Glitnis. Varamaður í stjórn ISB Holding er Reynir Kristinsson viðskiptaráðgjafi.