Fjárhagslegri endurskipulagningu Lyfju hf. lokið
Glitnir hf. hefur gert samkomulag við Árkaup hf. eiganda Lyfju hf. um fjárhagslega endurskipulagningu Lyfju með fyrirvara um samþykki samkeppnisyfirvalda. Með þessari aðgerð er starfsemi Lyfju tryggð og skuldir aðlagaðar greiðsluþoli fyrirtækisins.
Endurskipulagningin felur í sér að Glitnir sem helsti lánveitandi félagsins leiðréttir og niðurfærir hluta af lánum Lyfju meðal annars í samræmi við nýfallna dóma um ólögmæti gengislána. Núverandi hlutafé Lyfju verður afskrifað að fullu en hluta af lánum Glitnis verður breytt í eigið fé en við það eignast Glitnir 92,5% hlut í Lyfju. Árkaup sem einnig átti útistandandi lán hjá Lyfju breytir þeim öllum í eigið fé og fær við það 7,5% eignarhlut. Glitnir leggur félaginu ekki til nýtt fé.
Frá árinu 2008 hefur rekstur Lyfju ekki farið varhluta af samdrætti í íslensku efnahagslífi, gengisfalli íslensku krónunnar samhliða kröfum samfélagsins um lækkun á lyfakostnaði. Félagið var skuldsett með erlendum lánum þegar gengi krónunnar féll árið 2008. Við gengisfallið varð skuldastaða félagsins til lengri tíma illviðráðanleg. Stjórn og stjórnendur félagsins hafa brugðist við þessum erfiðu aðstæðum með margvíslegum hagræðingaraðgerðum sem þegar hafa skilað ákveðnum árangri. Með þeirri fjárhagslegu endurskipulagningu sem nú hefur verið samið um er skuldastaða félagsins viðráðanleg að nýju um leið og þau verðmæti sem felast í starfsemi og starfsfólki félagsins eru varin.