Greiðslur til forgangskröfuhafa Glitnis
Slitastjórn Glitnis hf. tilkynnir hér með að greiðslur til forgangskröfuhafa Glitnis fara fram föstudaginn 16. mars 2012. Á kröfuhafafundi sem haldinn var 31. janúar 2012, kynnti slitastjórn Glitnis tillögu um greiðslur til forgangskröfuhafa, þar sem farið var yfir eftirfarandi þætti:
- forsendur sem yrðu lagðar til grundvallar við greiðslu til forgangskröfuhafa í íslenskum krónum, evrum, bandaríkjadölum, sterlingspundum og norskum krónum (þ.m.t. hvernig hlutfall hverrar myntar er ákvarðað),
- gengið sem notað verður við reikning greiðslna í erlendum gjaldmiðlum úr íslenskum krónum,
- fyrirkomulag greiðslna vegna forgangskrafna, sem ágreiningur er um, inn á geymslureikninga þar til úrlausn um kröfuna liggur fyrir, og
- skilyrðin fyrir greiðslum til kröfuhafa, sem eiga óumdeildar forgangskröfur, þ.m.t. skilyrði um að kröfuhafar skuldbindi sig gagnvart Glitni að endurgreiða mögulegar ofgreiddar fjárhæðir.
Samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti ofl. áttu kröfuhafar Glitnis þess kost að mótmæla fyrirhugaðri greiðslutilhögun. Nokkur mótmæli bárust en hafa nú verið leyst eða dregin til baka. Því eru skilyrði þess að greiðsla geti farið fram uppfyllt.
Slitastjórnin áformar að inna af hendi greiðslur beint til forgangskröfuhafa og einnig inn á sérstaka geymslureikninga föstudaginn 16. mars 2012. Síðan er það ætlun slitastjórnarinnar að greiða mánaðarlega af geymslureikningunum til forgangskröfuhafa jafnóðum og endanleg úrlausn um kröfuna liggur fyrir og kröfuhafar uppfylla skilyrði til þess að fá úthlutað fjármunum af geymslureikningunum.
Hinn 13. mars samþykkti Alþingi lög nr. 17/2012. Með þeim voru gerðar breytingar á gjaldeyrishöftum á Íslandi og sérstök ákvæði sett um greiðslur í íslenskum krónum til erlendra aðila. Samkvæmt hinum nýju lögum þarf samþykki Seðlabanka Íslands fyrir úthlutun greiðslna í íslenskum krónum til forgangskröfuhafa. Af þeim sökum verður allur sá hluti úthlutunarinnar sem er í íslenskum krónum greiddur inn á geymslureikning í íslenskum krónum meðan beðið er heimildar Seðlabanka Íslands.
Kröfur vegna heildsöluinnlán
Fimmtíu og þrír opinberir aðilar í Bretlandi, þ.m.t. sveitarstjórnir og háskólar, áttu heildsöluinnlán hjá Glitni í októbermánuði 2008. Þessir innlánseigendur héldu því fram að þeir ættu rétt á forgangi vegna þessara innlána skv. 112. gr. íslenskra gjaldþrotalaga. Með dómi Hæstaréttar uppkveðnum 28. nóvember 2011 var komist að þeirri niðurstöðu að heildsöluinnlán nytu forgangs.
Gjaldmiðlar greiðslna
Allar kröfur á hendur Glitni voru umreiknaðar í íslenskar krónur miðað við gengi krónunnar hinn 22. apríl 2009. Greiðslur til forgangskröfuhafa verða i myntkörfu sem styðst við sama gengi. Greitt verður í íslenskum krónum, evrum, bandaríkjadölum, sterlingspundum og norskum krónum. Heildarfjárhæð forgangskrafna, sem greiddar verða út með þessari úthlutun, er kr. 105,6 milljarðar.