Tilkynning frá slitastjórn Glitnis hf. varðandi val á umsækjanda til formanns stjórnar Glitnis eftir nauðasamninga
Slitastjórn Glitnis hf. hefur tilnefnt Jan Kvarnström sem umsækjanda í stöðu formanns stjórnar bankans eftir nauðasamninga. Tilnefningin er hluti af áætlun um mögulegt tilboð um nauðasamninga sem myndu binda endi á slitaferli Glitnis.
Ef tilboð um nauðasamninga verður samþykkt af fulltrúum hluthafa sem fara með meirihlutaeign í Glitni mun tilnefndur formaður, ásamt tilnefndum stjórnarmönnum, verða útnefndur í starfið á hluthafafundi sem haldinn verður síðar.Stjórnin sem þá yrði stofnuð myndi gegna lykilhlutverki í varðveislu og skilum verðmæta í hendur kröfuhafa.
Jan Kvarnström hefur gegnt trúnaðarstörfum við endurskipulagningu og rekstraruppbyggingu við margar fjárhagslegar umbreytingar. Við Dresdner Bank sat hann í framkvæmdastjórn og var framkvæmdastjóri skipulagsbreytingadeildar bankans. Hjá Securum AB var hann framkvæmdastjóri fjármálastofnunar á vegum sænska ríkisins sem sett var á laggirnar í þeim tilgangi að taka við og vinda ofan af slæmum eignum banka sem var að hluta til í eigu ríkisins sem og að aðstoða við endurskipulagningu margra banka í Eystrasaltsríkjunum. Hann hefur líka verið stjórnarformaður Linebrook Limited, eignarhaldsfélags fyrir hagsmuni óskráðra félaga. Á ferli sínum hefur Kvarnström að auki verið framkvæmdastjóri PKbanken á Bretlandi og hefur gegnt trúnaðarstörfum í mörgum stjórnum hjá Bonner Group. Hann hefur setið í stjórnum margra félaga í hinum ýmsu löndum, þar á meðal verið stjórnarformaður sænska fasteignafélagsins Castellum AB og setið í stjórnum Carnegie AB, Akzo Nobel NV og sænska póstsins. Sem stendur er hann stjórnarmaður í Genworth Financial og stjórnarformaður Collector AB, sem er eftirlitsskylt fjármálafyrirtæki í örum vexti.
Kvarnström kom til álita sem stjórnarformaður eftir yfirgripsmikla leit sem alþjóðlegt fyrirtæki annaðist fyrir valnefndina sem slitastjórnin setti á laggirnar í samráði við hið óformlega kröfuhafaráð, í því skyni að velja hæfustu umsækjendurna til setu í stjórn Glitnis eftir nauðasamninga. Valnefndin mun halda áfram að leita að og velja aðra umsækjendur til stjórnar og verða upplýsingar um aðra tilnefnda umsækjendur lagðar fram síðar.
Fyrir hönd slitastjórnar Glitnis hf.
Steinunn Guðbjartsdóttir, hæstaréttarlögmaður.
Páll Eiríksson, héraðsdómslögmaður.