Leiðrétting vegna fréttar um THM
Vegna fréttar Morgunblaðsins fimmtudaginn 9. janúar 2013 um málefni Glitnis vill slitastjórn koma því á framfæri að það er ekki rétt að til standi „á allra næstu vikum að ráða nýja fjármálaráðgjafa í stað breska fjármálaráðgjafafyrirtækisins Talbot Hughes & McKillop (THM)...“
THM er fjármálaráðgjafi fyrir hönd allra kröfuhafa Glitnis en félagið var ráðið til þess verks af óformlega kröfuhafaráðinu (ICC). Engar ábendingar hafa borist frá kröfuhöfum um að THM njóti ekki stuðnings þeirra og er því ekki gert ráð fyrir öðru en að THM haldi áfram sínu hlutverki.
Þá skal áréttað, vegna fullyrðingar um hið gagnstæða í blaðinu, að Glitnir hefur í tvígang lagt fyrir Seðlabankann ítarlegar tillögur um úrvinnslu þrotabúsins með óskum um undanþágur frá gjaldeyrislögum, nú síðast 18.nóvember sl. Þar voru lagðar fram tillögur sem ætlað er, eins og fram kemur á heimasíðu Glitnis, „að uppfylla skilyrði laga um að stöðugleika í gengis- og peningamálum verði ekki raskað, samanber bréf Seðlabankans þann 23. september 2013“.
Beðið er viðbragða Seðlabankans við þeim tillögum.